Samkvæmt könnun sem breska fyrirtækið GP Wild gerði fyrir Hafnarsamband Íslands í samstarfi við samtökin Cruise Iceland á árunum 2013 og 2014 verslaði hver farþegi skemmtiferðaskips að meðaltali fyrir tæpar 79 evrur (þá 12.300 krónur) í hverri viðkomuhöfn skipanna á Íslandi. Samkvæmt könnuninni fóru 96% farþega í land á hinum ýmsu viðkomustöðum á Íslandi.

Miðað við að neysla þeirra sé sú sama í evrum talið og 350.000 farþegakomur í íslenskar hafnir munu ferðamenn þessir skila 3,5 milljörðum króna beint inn í hagkerfið. Þarna eru ekki taldar með þær fjárhæðir sem farþegar hafa óbeint greint fyrir hina ýmsu afþreyingu hér á landi sem pöntuð er í gegnum ferðaþjónustufyrirtæki á borð við ferðir um Gullna hringinn eða að Dettifossi. Né heldur eru talin útgjöld þeirra tug þúsunda áhafnarmeðlima sem leggja leið sína í land og eyða að meðaltali tæpum 1.500 krónum í viðkomuöfn.

Lyftistöng fyrir hafnirnar

Komur skemmtiferðaskipanna eru mikil tekjulind fyrir hafnir landsins, en samkvæmt upplýsingum Cruise Iceland frá árinu 2013 voru tekjur hafna af komum þeirra um 433 milljónir króna árið 2013. Að sögn Péturs Ólafssonar, hafnarstjóra á Akureyri og stjórnarmanni Cruise Iceland, eru tekjur Akureyrarhafnar af skemmtiferðaskipum um 160 m.kr. í ár eftir að hafa verið 100 m.kr. árið 2013 og helst það í hendur við þá 60% fjölgun skipa sem þangað hafa komið.

Ef gert er ráð fyrir tekjuaukningu í samræmi við fjölgun skipakoma eru tekjur íslenskra hafna af skemmtiferðaskipum árið 2016 rétt tæpar 900 milljónir króna. Á landsbyggðinni getur yfir helmingur af tekjum hafna komið frá skemmtiferðaskipunum, sem þar að auki stórbæta nýtingu þeirra.

Að auki fær hið opinbera tekjur í formi skatta, vitagjalda, tollskoðunargjalda, umsýslugjalda og sorphirðu, auk þess sem skipin versla hér olíu, nýta sér þjónustu umboðsaðila o.fl.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .