„Mér líst afskaplega vel á þetta skip. Það er glæsilegt í alla staði og með miklum og góðum búnaði,“ sagði Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, þegar skrifari heimasíðu Síldarvinnslunnar hf . ræddi við hann í tilefni þess að nýja skipinu var siglt inn í heimahöfn í dag.

„Þegar skipið er borið saman við gömlu Vestmannaey blasir við fullkomnari aðstaða að flestu leyti. Má þar til dæmis nefna vinnuumhverfið á millidekki og í brúnni en þar er um mikla breytingu að ræða. Þá má nefna að í skipinu eru tvær vélar og tvær skrúfur og ég tel fullvíst að það hafi í för með sér meiri togkraft. Skipið er einkar hljóðlátt. Það heyrist lítið í vélunum og öll spil eru knúin rafmagni. Þá er þetta skip sérstaklega mjúkt og fer vel með mannskapinn. Við fengum kaldaskít á leiðinni til landsins og upplifðum þá hvernig það fer í sjó. Það er svo sannarlega tilhlökkunarefni að fara að fiska á þetta skip en það mun ekki gerast fyrr en um mánaðamótin ágúst-september. Það á eftir að ganga frá búnaði á millidekkinu en sú vinna verður hafin í Vestmannaeyjum og síðan verður dekkið klárað í Slippnum á Akureyri,“ segir Birgir Þór.