Farmanna- og fiskimannasamband Íslands hefur sent frá sér ályktun þar sem sambandið lýsir áhyggjum sínum af því ófremdarástandi sem Landhelgisgæslunni sé ætlað að búa við.

Segir í ályktuninni að málum sé nú svo komið að einungis eitt varðskip sé í rekstri hverju sinni og úthald þess skips sé takmarkað vegna óraunhæfs sparnaðar í olíunotkun skipsins.

Sambandið segir að síðustu tvö atvik þegar tvö skip strönduðu við Austfirði með skömmu millibili sýna berlega hve ótækt ástandið sé. Ekki þurfi að spyrja að leikslokum ef slík atvik hendi á öðrum árstíma þegar allra veðra sé von og eina björgunarvonin kunni að vera af sjó.

Segir að lokum í ályktuninni:

„Við núverandi ástand er ljóst að sæfarendur umhverfis landið og á miðum geta ekki reitt sig á aðstoð Landhelgisgæslunnar verði skip eða áhafnir fyrir áföllum. Skorað er á alþingismenn að tryggja öryggi sæfarenda þannig að varðskip Landhelgisgæslunnar séu gerð út með eðlilegum hætti.“