Kanadíski flugvélaframleiðandinn Field Aviation, sem m.a. framleiðir Bombardier vélarnar, hefur nú lokið fyrstu endurnýjun flugstjórnarklefa Bombardier Dash 8. Þar er um að ræða flugvél Landhelgisgæslunnar, TF SIF.

Vél gæslunnar hefur undanfarnar vikur verið í Kanada þar sem skipt var um helstu tæki í flugstjórnarklefa hennar. Vélin sneri aftur til landsins í síðustu viku.

Í stuttu máli felur breytingin í sér að öll mælitæki í vélinni eru nú sett fram á rafrænum skjáum í stað hefðbundinna mæla áður. Þrátt fyrir að TF Sif sé nokkuð ný (árg. 2009) var hún fyrsta vélin sem fær nýja útgáfu af flugstjórnarklefa.

Á vef flugfréttavefsins Flight Global kemur fram að endurnýjun stjórnklefans var unnin í nánu samstarfi við bandaríska tæknifyrirtækið Universal Avionics. Um 30 mælar voru fjarlægðir og sem fyrr segir koma rafrænir (digital) skjáir þeirra í stað. Þetta léttir vélina – sem um leið sparar eldsneyti – auk þess sem endurnýjunin á að draga úr viðhaldskostnaði, minni áhættu á bilanatíðni og gera mælitækin skýrari.

Framleiðendur Bombardier vonast til þess að fleiri eigendur Dash 8 vélanna láti endurnýja flugstjórnarklefana í vélum sínum á næstu misserum.

TF-SIF
TF-SIF
© Gísli Freyr Valdórsson (VB MYND/GFV)

Hér má sjá inn í eldri flugstjórnarklefa TF SIF. Öll mælitæki hafa nú verið endurnýjuð.

Við þetta má bæta að eins og Viðskiptablaðið greindi frá í sérblaði um flug um miðjan mars sl. stendur nú til að endurnýja  flugstjórnarklefa í öllum vélum Icelandair en þær eru af gerðinni Boeing 757. Nánari úttekt um nýju flugstjórnarklefana má sjá í blaðinu sem kom út þann 10. mars sl. Hér að neðan má sjá mynd af nýjum flugstjórnarklefa í Boeing 757 vél Icelandair.

Flugstjórar Icelandair á reynsluflugi í nýuppgerðum stjórnklefa Boeing 757 vél félagsins út af Reykjanesi.
Flugstjórar Icelandair á reynsluflugi í nýuppgerðum stjórnklefa Boeing 757 vél félagsins út af Reykjanesi.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Flugstjórar Icelandair á reynsluflugi í nýuppgerðum stjórnklefa Boeing 757 vél félagsins út af Reykjanesi.