Nauðasamningur Allrahanda GL (AGL), sem rekur ferðaþjónustu undir merkjum Gray Line hér á landi, fór fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur á dögunum eftir að yfir 85% kröfuhafa höfðu samþykkt samningsfrumvarpið í lok júlí.

Kröfuhafinn E.T. ehf. og móðurfélag þess, Snókur eignarhaldsfélag, voru einu aðilarnir sem sóttu þing til að mótmæla kröfu AGL um staðfestingu nauðasamningsins. Héraðsdómur staðfesti nauðasamninginn en E.T. hefur kært úrskurðinn til Landsréttar.

Mótmæli Snóks snúa einkum af því að félagið hafði samþykkt að leggja AGL til nýtt hlutafé að fjárhæð 540 milljónir króna sem, auk 200 milljóna hlutafjárloforði núverandi hluthafa, átti að tryggja uppgjör við kröfuhafa. Með fjármögnuninni hefði Snókur eignast 73% hlut í AGL.

Kröfuhöfum var gert grein fyrir þessari fjármögnun þegar kosið var um nauðasamninginn þann 28. júlí sl.

Nokkrum dögum síðar ákvað AGL að skipta Snóki út sem fjármögnunaraðila fyrir Pac1501, eiganda Hópbíla, sem er í eigu Horns III, framtakssjóðs í stýringu Landsbréfa. Pac1501 tryggir AGL fjármögnun að fjárhæð 550 milljónir króna sem er liður í 830 milljóna króna kaupum á GL Iceland, dótturfélagi AGL, ásamt öllum bifreiðaflota AGL sem inniheldur 49 rútur.

Nauðasamningur AGL felur í sér að lánardrottnum sé boðin greiðsla á 30% krafna sinna sem tryggja á með framangreindri fjármögnun. Samþykktar samningskröfur námu 900 milljónum og því felur samningurinn í sér að almennir kröfuhafar fá greitt um 276 milljónir við uppgjörið.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, sem kom út 1. desember. Rætt er við Kristmund Einarsson, framkvæmdastjóra Snóks, og Þórir Garðarsson, stjórnarformann AGL, um málið.