Dómararnir þrír sem upphaflega dæmdu í Exeter-máli sérstaks saksóknara hafa beðist undan því að taka að sér þann anga málsins sem Hæstiréttur vísaði aftur heim í hérað í sumar. Er greint frá þessu í Fréttablaðinu. Nýr dómari hefur verið skipaður, en það kallar á að málið verði tekið til efnislegrar meðferðar á nýjan leik.

Hæstiréttur sneri í júní sýknudómi yfir Ragnari Z. Guðjónssyni og Jóni Þorsteini Jónssyni, fyrrverandi yfirmönnum Byrs sparisjóðs, og dæmdi þá báða í fjögurra og hálfs árs fangelsi. Þætti þriðja sakborningsins, Styrmis Þórs Bragasonar, fyrrverandi forstjóra MP banka, var hins vegar vísað aftur heim í hérað. Ástæða þess að skipt verður um dómara er sú að þótt tveir dómaranna, þeir Arngrímur Ísberg og Einar Ingimundarson hafi ekki tekið afstöðu til sektar eða sýknu Styrmis þá gerði Ragnheiður Bragadóttir það hins vegar. Guðjón St. Marteinsson hefur verið skipaður dómsformaður í málinu.