Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku, segir að ef skapa eigi virkan smá- sölumarkað með raforku þurfi að skipta Landsvirkjun upp í minni einingar. „Þær eiga ekki allar að vera í ríkiseigu að mínu mati,“ segir Ásgeir.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og  efnahagsráðherra, velti upp á ársfundi Landsvirkjunar á þriðjudag hvort tilefni væri til að endurskoða fyrirkomulag smásölu á raforkumarkaði. Fá merki væru um að tekist hafi að koma á virkri samkeppni á smásölumarkaði á raforku líkt og stefnt var að með breytingu á raforkulögum árið 2003.

„Landsvirkjun er að mínu mati of stór til þess að svona samkeppnismarkaður geti komist á,“ segir Ásgeir og bendir á að Landsvirkjun sé tíu sinnum stærri en HS Orka sem sé þó þriðja stærsta fyrirtækið á orkumarkaði. Þá selji Landsvirkjun um helming raforku á heildsölumarkaði hér á landi.

Nýjar virkjanir geti ekki keppt við Landsvirkjun

Ásgeir að vöntun sé á raforku hér á landi. Umtalsverð eftirspurn sé frá fjölda aðila eftir raforku sem ekki takist að sinna að fullu. Hins vegar séu nýir virkjanakostir dýrari en eldri virkjanir. „Það má segja að það sé búið að tína ávextina sem hanga neðst í trénu.  Kostirnir sem eru eftir eru dýrari og orkan frá þeim getur ekki verið samkeppnisfær við orkuverð  Landsvirkjunar,“ segir Ásgeir. Nýjar virkjanir þurfi að borga auðlindagjöld fyrir aðgang að auðlindunum, sem ekki hafi þurft í tilfelli eldri virkjana, þar á meðal virkjana Landsvirkjunar. Landsvirkjun hafi í einhverjum tilfellum þurft að greiða eignarnámsbætur sem séu þó mun lægri en auðlindaleiga dagsins í dag.

Auk þess hafi kröfur í umhverfismálum aukist, sem sé jákvætt, en hafi í för með sér lengra ferli sem þýði óhjákvæmilega að virkjanirnar verði kostnaðarsamari.

Hörður segir aðra þurfa að bæta í

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að vel megi skoða hvort markmið raforkulaganna frá árinu 2003 hafi náðist. Hann sé sammála Bjarna um að á heildsölumarkaði sé markaðurinn ekki mjög virkur og þyrfti að vera gegnsærri. Hvað varðar markaðshlutdeild Landsvirkjunar á heildsölu sé ekki við Landsvirkjun að sakast. „Aðrir aðilar hafa virkjað heilmikið á síðustu árum.

En þeir hafa ákveðið að selja stærstan hluta af því til stórnotenda en ekki inn á heildsölumarkaðinn. Það er ákvörðun þeirra og Landsvirkjun stýrir því ekki,“ segir Hörður.

„Það er engin þörf til að skipta Landsvirkjun upp til að auka samkeppni á smásölumarkaði,“ segir Hörður. Þar þurfi að hafa í huga að Landsvirkjun selji 85% af sinni raforku til stórnotenda. „Þar er virkur markaður þar sem tveir sterkir aðilar semja sín á milli um raforku,“ segir Hörður.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .