Skiptum á Ísl.Augl. efh., sem hét áður Íslenska Auglýsingastofan, lauk fyrir viku síðan. Lýstar kröfur námu 119 milljónum króna en engar eignir fundust í búinu. Auglýsingastofan var lýst gjaldþrota í lok september 2020. Viðskiptablaðið sagði frá því fyrr í ár Ábyrgðasjóður launa var stærsti haghafi þrotabúsins en 365, sem leigði félaginu skrifstofur að Bræðraborgarstíg, lýsti ekki kröfu í búið.

Sjá einnig: Tókst ekki að endursemja við 365

Það fór að halla undan fæti hjá Íslensku auglýsingastofunni eftir að hún missti viðskipti við Icelandair árið 2019 . Flugfélagið hafði átt í samstarfi við auglýsingastofuna í rúmlega þrjá áratugi og stóð undir 35-40% af veltu félagsins ári fyrir gjaldþrotið.

Feðgarnir Þormóður Jónsson og Baldvin Þormóðsson keyptu vörumerki Íslensku auglýsingastofunnar og eignir af þrotabúinu eftir gjaldþrotaskiptin. Heiðar Ásberg Atlason skiptastjóri segir í samtali við Viðskiptablaðið að ekki hafi verið um háar fjárhæðir að ræða og að þær hafi farið upp í kostnað við skiptin.