Sveiflur voru á skuldabréfamarkaði í síðustu viku og endurspegla skiptar skoðanir á skuldabréfamarkaði um þessar mundir, að sögn greiningardeildar Glitnis, sem telur að það verði nokkur óvissa um gengi krónunar næstu daga í kjölfar ráðgjafar Hafrannsóknarstofnunar um hámarksafla á komandi fiskveiðiári. Einnig birtar opinberar tölur um viðskiptahallan sem reyndist "töluverður".

"Í síðustu viku hækkaði ávöxtunarkrafa íbúðabréfa um 6-21 punkta, meira á styttri endanum," segir greiningardeildin. "Hækkun kröfunnar í síðustu viku gekk nær að fullu til baka í gær á lengri enda vaxtaferilsins og hækkun á styttri enda vaxtaferilsins gekk til baka að hluta. Lækkun kröfunnar í gær má rekja til mikillar lækkunar gengis krónunnar en krónan veiktist um 2,3% yfir daginn. Svona mikil lækkun gengis krónunnar leiðir af sér væntingar um meiri verðbólgu en ella á komandi mánuðum."