Skiptar skoðanir eru í Eistlandi um upptöku evrunnar en evran varð lögmynt þar í landi nú um áramótin. Þeir sem eru fylgjandi upptöku evrunnar vonast til þess að aðgerðin verði til þess að erlend fjárfesting aukist og  traust skapist á fjármálamörkuðum sem bæti lánshæfi eistneskra fyrirtækja og einstaklinga. Þeir sem eru andvígir upptöku evrunnar óttast hinsvegar að upptaka evrunnar komi til með að valda því að verðlag hækki, sérstaklega á matvöru. Þá hafa þeir áhyggjur af því að þurfa nú að leggja sitt að mörkum til að fjármagna björgunaraðgerðir í öðrum Evruríkjum á borð við Grikkland og Írland.

Þetta segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka sem fjallar um málið í dag.

Umfjöllun greiningarinnar má lesa hér að neðan:

Eistar taka upp Evruna

Myntbandalagi Evrópu barst liðsauki nú um áramótin þegar Eistland tók evruna upp sem lögeyri landsins og varð þar með 17. meðlimur Myntbandalagsins. Eistland hefur verið meðlimur í Evrópusambandinu síðan árið 2004 og er fyrsta fyrrum Sovétlýðveldið sem tekur upp evruna. Eistneska krónan heyrir nú sögunni til en verslanir munu þó enn taka við krónum út janúarmánuð og eistneskir bankar munu taka við krónum út þetta ár. Þeir sem enn luma á eistneskum krónum að þeim tíma liðnum þurfa þó ekki að örvænta þar sem eistneski seðlabankinn mun skipta krónum fyrir evrur um ókomna tíð. Upptaka evrunnar í Eistlandi hefur átt sér langan aðdraganda, en allt frá því að Eistland gekk til liðs við ESB árið 2004 hefur það átt aðild að ERM II myntsamstarfinu. ERM II er fordyri evrunnar en í því felst að miðgengi viðkomandi myntar gagnvart evru er fest og myntinni leyft að víkja 15% til hvorrar áttar frá miðgildinu. Þegar Eistland gekk í ERM II árið 2004 var miðgengið fest í 15,6 krónur fyrir hverja evru. Hefur það haldist óbreytt síðan þá og á því gengi er evran tekin upp nú. Eistneska krónan hefur reyndar aldrei verið sjálfstæð flotmynt eins og frænka hennar íslenska krónan en áður en hún var bundin evrunni var hún tengd þýska markinu.

Öll skilyrði uppfyllt

Evrópusambandið setur eins og kunnugt er nýjum aðildarríkjum nokkur skilyrði áður en þau geta tekið upp evruna. Skilyrðin eiga að tryggja að  fjármálastöðugleika og verðbólguhorfum standi ekki ógn af fjölgun þátttökuþjóða á svæðinu. Sá tími sem ný aðildarríki eyða í ERM II fordyrinu veltur á því hversu hratt þau uppfylla þessi skilyrði sem nefnast Maastricht skilyrðin og eru fjórþætt.  Í fyrsta lagi skal verðbólga ekki vera  meiri en 1,5 prósentustigum hærri en meðaltal þeirra þriggja landa ESB þar sem hún er lægst, árið áður en evruupptaka er staðfest. Þessi mörk eru núna u.þ.b. 1,5% Þá skal halli á rekstri hins opinbera ekki vera meiri en 3% af vergri landsframleiðslu (VLF) næsta fjárlagaár fyrir staðfestingu evruupptöku og  heildarskuldir hins opinbera ekki vera meiri en 60% af VLF í lokin á ofangreindu tímabili. Raunar hefur verið slakað á þessum tveimur skilyrðum ef sýnt þykir að þau verði uppfyllt í kjölfar evruupptöku. Loks skulu langtíma nafnvextir ekki vera meira en 2 prósentustigum hærri en vextir í þeim þremur löndum sem hafa lægsta verðbólguna. Þessi mörk eru núna u.þ.b. 6%. Eistland uppfyllir öll þessi skilyrði, en verðbólga var til að mynda aðeins 0,2% á síðasta ári og skuldir hins opinbera hvergi lægri  í Evrópusambandinu heldur en í Eistlandi á síðasta ári.

Stórt skref fyrir Eistland

Evran hefur vissulega átt undir högg að sækja undanfarið og finnst eflaust mörgum skjóta skökku við að Eistar séu nú á þessum tímapunkti að taka upp evruna. Smæð Eistlands gerir þó að verkum að deila má um hversu mikill liðsaukinn er í raun og veru en Eistar eru 1,3 m. talsins og verg landsframleiðsla síðasta árs nemur 0,2% af heildar framleiðslu myntbandalagsins. Forsætisráðherra Eista, Andrus Ansip, hitti því naglann á höfuðið þegar hann sagði að þetta væri lítið skref fyrir evrusvæðið en stórt skref fyrir Eistland.

Afar skiptar skoðanir eru um upptöku evrunnar í Eistlandi. Þeir sem eru fylgjandi upptöku evrunnar vonast til þess að aðgerðin verði til þess að erlend fjárfesting aukist og  traust skapist á fjármálamörkuðum sem bæti lánshæfi eistneskra fyrirtækja og einstaklinga. Þeir sem eru andvígir upptöku evrunnar óttast hinsvegar að upptaka evrunnar komi til með að valda því að verðlag hækki, sérstaklega á matvöru. Þá hafa þeir áhyggjur af því að þurfa nú að leggja sitt að mörkum til að fjármagna björgunaraðgerðir í öðrum Evruríkjum á borð við Grikkland og Írland. Eistar hafa reyndar ekki varið varhluta af fjármálakreppunni. Eistneska hagkerfið dróst saman um 6% árið 2008 og um 14% árið 2009. Atvinnuleysi þar í landi er nú 16% sem er með því hæsta sem gerist í löndum ESB. Hins vegar er búist við að viðsnúningur verði á þessu ári og gerir OECD ráð fyrir að hagvöxtur verði 2,5% í Eistlandi á þessu ári.