Sérfræðingur á skuldabréfamarkaði hjá Royal Bank of Canada telur að vaxtahækkun Seðlabanka Íslands í vikunni styðji þann grun spákaupmanna maðkur kunni að leynast í mysu íslenska hagkerfisins. Hank Calenti, sérfræðingur hjá Royal Bank of Canada í London, segir að slíkar aðgerðir staðfesti svartsýnustu spár. Bloomberg hefur eftir Calenti að ef að seðlabankinn sé að grípa til slíkra aðgerða geti það ekki verið að ástæðulausu.

William Symington,yfirmaður endurfjármögnunar Glitnis í London er ekki á sama máli. Bloomberg hefur eftir honum að lausafjárþurrð á mörkuðum sé alþjóðleg og það að íslenski seðlabankinn grípi til aðgerða nú hafi ekki neinar duldar meiningar að baki og að þær séu til þess eins að styðja við gengi krónunnar.

Deilt um orsök hás skuldatryggingaálags

Menn hafa deilt um hvað veldur háu skuldatryggingaálagi íslensku bankanna. Sumir hafa rakið það til vanþekkingar á íslenska hagkerfinu, aðrir til þess að óvenjulegar aðstæður ríki á fjármálamörkuðum og þær afhjúpi kerfislæga galla þeirra líkana sem fjárfestar noti til þess að verðmeta skuldatrygginga.

Enn aðrir hafa rakið ástandið til veðmála spákaupmanna um að fall meiriháttar fjármálastofnunar í Evrópu myndi verða til þess að kreppa myndi verulega að í íslenska hagkerfinu sökum smæðar krónunar og mikilvægis fjármálageirans fyrir hagkerfið.

Bloomberg-fréttaveitan fjallaði um hátt skuldatryggingaálag Kaupþings og Glitnis í gær í kjölfar mikils fréttaflutnings erlendra fjölmiðla af ástandinu í íslenska hagkerfinu.  Sem kunnugt er þá endurspegla skuldatryggingar væntingar fjárfesta um hvort að fyrirtæki geti staðið í skilum með afborgunir sínar í framtíðinni.

Fréttaveitan hefur eftir Matthew Hegarty, sérfræðingi hjá Barclays í London,  að skuldatryggingaálag bankanna bendi ekki einungis til þess að það sé fjarlægur möguleiki á að bankarnir standi ekki í skilum næstu af skuldbindingum sínum næstu fimm árin - álagið nú feli í sér að það sé raunverulegur möguleiki.

Skuldatryggingaálagið óskiljanlegt

Afleiðuviðskipti með skuldatryggingar hafa aukist gríðarlega á síðustu árum sökum þess að slíkir fjármálagjörningar hafa gert spákaupmönnum kleift að skortselja skuldabréf án þess að vera með stöðu í undirliggjandi skuldabréfum. Margir hafa  leitt að því líkum að markaðurinn sé skekktur sökum þessa.

Bent er á það í grein Bloomberg  að skuldatryggingaálag íslensku bankanna sé tíu sinnum hærra en gengur og gerist að meðaltali hjá evrópskum bönkum. Í kjölfarið er minnst á það í grein Bloomberg að bankarnir hafi fjármagnað útrás sína á markaði í stað þess að reiða sig á innlán. Í framhaldi er haft eftir talsmönnum Glitnis og Kaupþings að báðir bankarnir séu vel fjármagnaðir og skuldatryggingaálagið sé því óskiljanlegt.