Langt var á milli flokkanna fimm sem stóðu í stjórnarmyndunarviðræðum en hafa nú slitið þeim viðræðum varðandi fjármögnun uppbyggingar í heilbrigðisþjónustu og menntamálum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá þingflokki Vinstri grænna. Þar segir einnig að það höfðu ekki allir flokkarnir sannfæringu fyrir því að halda áfram viðræðum.

Hér má lesa tilkynningu Vinstri grænna í heild sinni:

Undanfarna daga hafa Vinstri græn, Viðreisn, Björt framtíð, Píratar og Samfylkingin átt í formlegum viðræðum um myndun nýrrar ríkisstjórnar. Að þeim hafa komið komið yfir þrjátíu manns fyrir hönd flokkanna sem lagt hafa fram mikla vinnu við að skapa grundvöll fyrir samstarfi þeirra í ríkisstjórn. Góður andi var í viðræðunum og fyrir lá að víða var ágætur samhljómur um málefni.

Frá upphafi var þó ljóst að töluvert langt var á milli flokkanna í ýmsum málefnum, ekki síst hvað varðar fjármögnun nauðsynlegrar uppbyggingar í heilbrigðisþjónustu og menntamálum. Í dag kom í ljós að ekki voru allir flokkarnir með sannfæringu fyrir því að halda viðræðunum áfram og það var því niðurstaða Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna að viðræðum yrði ekki fram haldið.