Jón Gnarr og Sigurjón Kjartansson sökuðu þáverandi forstjóra 365, Ara Edwald, um pilsfaldakapítalisma þegar hann talaði gegn komu Netflix. Þetta var sagt í útvarpsþættinum Tvíhöfða árið 2013, en þátturinn var þá á dagskrá Rás 2.

Ari hafði þá skrifað grein í Fréttablaðið en þar sagði:

„Mikilvæg atvinnugrein fær ekki þrifist ef hún nýtur ekki réttarverndar á borð við aðrar. Íslensk tunga og menning eru í húfi ef kynslóðir vaxa upp fyrst og fremst við ótextað erlent efni. Og ríkissjóður verður af miklum tekjum hvort sem efni er stolið án nokkurrar greiðslu, eða útlendum efnisveitum er greitt fyrir þjónustu sem er ólögleg hér á landi og stendur ekki skil á neinu gagnvart íslensku samfélagi.“

Jón og Sigurjón ræddu um grein Ara og sögðu hann uppvísann af pislfaldakapítalisma og ekki fylgja lögmálum markaðarins. Þeir sögðu einnig að Netflix þjónustan væri eðlilegur hlutur markaðarins sem að neytendur myndu hagnast á. DV greindi frá því á sínum tíma.

Aftur á öndverðum meiði við forstjóra 365

Jón skrifaði færslu á Facebook í gær þar sem hann sagðist ekki vera viss um hversu mikið fagnaðarefni koma Netflix væri fyrir neytendur. Jón sagði að mikið væri mikið lagt á sig við að efla innlenda framleiðslu og dagskrá.

„Það er nokkuð flókið að gera íslenska sjónvarpsþætti. Sérstaklega með tilliti til fjármögnunar. Kvikmyndasjóður Íslands leggur enga sérstaklega áherslu á sjónvarp. Þeir styrkja aðallega kvikmyndir og sjónvarp mætir eiginlega afgangi. [...] Ef fyrirtæki eins og 365 og fleiri hætta að sjá sér fært að standa í því að framleiða íslenskts sjónvarpsefni þá er það hreint ekkert fagnaðarefni. Það er bara synd.“

Sævar Freyr Þráinsson, núverandi forstjóri 365 sagði í samtali við mbl.is í gær að koma Netflix til landsins breyti ekki miklu enda hafi fjölmörg heimili þegar aðgang að bandarísku útgáfunni.