Óvissa umlykur stjórnarstörf Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum um þessar mundir í kjölfar deilna sem spruttu upp í félaginu um kosningu nýrrar stjórnar. Málið er bagalegt fyrir félagið sem hefur staðið í miklum framkvæmdum og fjárfestingum að undanförnu sem hafa ekki verið að fullu fjármagnaðar.

Forsögu málsins kannast margir við en deilur komu upp á aðalfundi félagsins í síðasta mánuði. Svo fór að tvisvar var kosið í stjórnina og hefur Hlutafélagaskrá RSK því borist tvær tilkynningar um nýtt stjórnarkjör og bíða hluthafar því eftir niðurstöðu yfirstandandi rannsóknar Hlutafélagaskrár á málinu. Niðurstað­ an hefur ekki enn borist og segir talsmaður minnihluta hluthafa að hópurinn hafi fengið þær upplýsingar að efnisleg meðferð málsins geti dregist þar sem ekkert sambærilegtmál hefur áður komiðinn á borð Hlutafélagaskrár.

Lögfræðingar líta málið ólíkum augum

Viðskiptablaðið hefur ráðfært sig við fjölda lögfræðinga við gerð fréttarinnar en enginn þeirra vill koma fram undir nafni. Allir taka þeir undir það að nokkur lagaleg óvissa sé uppi í málinu. Ýmsir hallast að því að stjórn félagsins sem sat áður en til aðalfundar kom og enn er skráð í fyrirtækjaskrá hafi umboð til að sinna störfum þar til ný stjórn verður kosin á löglegan hátt. Aðrar telja réttast að boða tafarlaust til nýs fundar og komast þannig hratt og örugglega að niðurstöðu um hver skuli skipa stjórn félagsins.

Enn annar lögfræðingur sem kom að máli við blaðið telur að sú stjórn sem kjörin var á fundinum í seinni umferðinni fari með ákvörðunarvald í félaginu þar til kosningin á fundinum hefur verið ógilt með dómi eða að kosning hefur verið endurtekin á nýjum hluthafafundi. Hann ítrekar þó að þetta sé ekki ótvírætt heldur byggi á því að hvergi er tekið fram í hlutafélagalögum að tilkynning til hlutafélagaskrár um nýja stjórnarmenn sé skilyrði fyrir því að stjórnin geti tekið til starfa.

Geta verið persónulega ábyrgir

Samkvæmt hlutafélagalögum nr. 2/1995 er Hlutafélagaskrá heimilt að synja skráningu á tilkynningu um nýja stjórn ef ákvarðanir eru ekki teknar á þann hátt sem ákveðið er í lögum eða samþykktum félags. Lögfræðingur bendir þó á að þá standi eftir spurningar á borð við hvort stjórn sem kjörin er í kosningu sem ekki stenst lagalega geti boðað til hluthafafundar eða hvort fyrri stjórn eigi að gera það. Í öllu falli sé líklegast að endurtaka þurfi kosninguna á hluthafafundi, hvernig svo menn komast þangað, með því að koma sér saman um að boða nýjan fund, láta málið ganga til dóms eða fá ráðherra til þess að boða til fundarins skv. 87.gr. laganna. Allir þeir lögfræðingar sem Viðskiptablaðið ræddi við benda loks á að ákvarðanir sem stjórnarmenn taka og skaða félagið eða eigendur geta hugsanlega bakað þeim sjálfum og félaginu skaðabótaábyrgð komi til þess að stjórnarkjörið verði ógilt.

Ólíkar skoðanir hluthafa um hvernig leyst skuli úr málinu

Báðir deiluaðilar innan Vinnslustöðvarinnar, þ.e. bæði meirihluti og minnihluti hluthafa hafa sent frá sér fréttatilkynningu þar sem þeir lýsa ólíkum skoðunum sínum á því hvernig leyst skuli úr málinu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.