Það verður ekki hjá því komist að spyrja Finn Oddsson, framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs, um afstöðuna til umsóknar Íslands að Evrópusambandinu (ESB) en mörg ólík sjónarmið hafa verið uppi innan stjórnar Viðskiptaráðs.

Í Viðskiptablaðinu er að finna ítarlegt viðtal við Finn stöðuna í atvinnulífinu og efnahagskerfinu, rof á trausti milli stjórnvalda og atvinnulífsins, óvandaða löggjöf og loks stöðu Viðskiptaráðs sem um tíma virtist ekki beysin.

Eftirfarandi kafli rataði ekki í prentútgáfu blaðsins og er því birtur hér í heild sinni.

„Það er ekki hægt að horfa framhjá því að raunverulegir efnahagslegir kostir felast í því að vera hluti af stærra myntbandalagi, ESB. Af þeim ástæðum ályktaði stjórn Viðskiptaráðs, áður en sótt var um aðild, að það væri rétt að skilgreina samningsmarkmið, sækja um aðild að ESB og reyna eftir fremsta megni að ná fram hagstæðum samningi,“ segir Finnur aðspurður um afstöðuna til ESB og tekur undir að skiptar skoðanir séu um málið innan stjórnar Viðskiptaráðs.

„Viðskiptaráð tekur hins vegar enga afstöðu til aðildar fyrr en samningurinn liggur fyrir. Það væri eins og kaupa sér bíl án þess að skoða hann.“

Finnur bætir því þó við að nauðsynlegt sé að fá botn í umræðuna um peningamál á Íslandi því peningastefnan sé hryggjarstykkið í efnahagsstefnunni okkar og hefur mjög afgerandi áhrif á það hvaða ákvarðanir við tökum í dag, t.a.m. í því mikilvæga verkefni sem afnám gjaldeyrishafta er.

„En hver svo sem ákvörðunin verður, þá skiptir miklu fyrir þá sem reka fyrirtæki að vita að hverju þeir ganga. Þær ákvarðanir sem við tökum í dag eiga að byggja á áætlun til fimm, tíu eða fimmtán ára. Við mættum vel hætta endalausum hringlanda um mikilvæg mál sem skapa óvissu, gera áætlunargerð ómarkvissa og koma í veg fyrir fjárfestingu og framþróun,“ segir Finnur.

„Þetta á við um sértæk málefni, en þar er nærtækt að nefna það ófremdarástand sem skapað hefur verið um sjávarútveg eða umhverfi beinnar erlendrar fjárfestingar á Íslandi. Svo eru stóru málin ekki síður þung á metunum; peningastefna eins og áður sagði, áherslur í ríkisfjármálum um vægi skattahækkana og niðurskurðar og almenn efnahags- og atvinnustefnu, þ.e. á hverju við ætlum að lifa til framtíðar. Í öllum þessum málum skortir skýra stefnu og hefur gert um langa hríð. Óvissan er slík að sumir ganga nú svo langt að segja að þeim sé orðið nokkuð sama hvort við förum hingað eða þangað, þeir vilja bara vita hvert svo hægt sé að haga ákvörðunum eftir því. Þessi afstaða lýsir ágætlega ergelsinu sem nú verður allt of vart við í íslensku atvinnulífi.“