Mismunandi viðhorf til sölu Perlunnar komu fram á stjórnarfundi Orkuveitunnar í gær þar sem lögð var fram yfirlýsing hæstbjóðanda og Orkuveitunnar um framgang söluferlisins. Kjartan Magnússon óskaði eftir að stjórn Orkuveitu Reykjavíkur upplýsi opinberlega um tilboðsgjafa og fjárhæðir þeirra sex tilboða, sem bárust í Perluna. Einnig vill Kjartan að upplýst verði um helstu hugmyndir og fyrirvara, sem tengjast umræddum tilboðum, þannig að almenningi verði ljóst með hvaða hætti þau fela í sér breytingar á deiliskipulagi og hugsanleg kaup á byggingarrétti í Öskjuhlíð. Stjórnin ákvað að fresta málinu til næsta stjórnarfundar OR og að láta lögfræðing kanna hvort mætti gefa umbeðnar upplýsingar.

Orkuveita Reykjavíkur skrifaði undir viljayfirlýsingu þess efnis að hæstbjóðandi fái frest til 31. mars næstkomandi til að aflétta fyrirvörum í tilboði sínu. Fyrirvararnir miðast við að treysta forsendur hagkvæmniathugunar, sem liggur til grundvallar tilboðinu. Á stjórnarfundi Orkuveitunnar 21. desember komu fram mismunandi viðhorf stjórnarmanna til sölunnar. Niðurstaða fundarins varð sú að raska ekki því ferli sem stendur yfir.

Sex tilboð bárust í Perluna, en eignin var auglýst til sölu nú á haustdögum. Öll tilboðin voru háð fyrirvörum en hið hæsta nemur 1.688,8 milljónum króna. Ekki verður ráðist í viðræður við aðra bjóðendur meðan viljayfirlýsingin við hæstbjóðendur er í gildi.