Kyrrsetning sem þrotabú Wow air óskaði eftir á eignum Títans fjárfestingarfélags, fyrrverandi eiganda Wow air, var árangurslaus þar sem allar eignir félagsins voru veðsettar vegna lánveitinga Arion banka til félagsins. Þetta kemur fram í ViðskiptaMogganum .

Skiptastjórar þrotabús Wow hafa farið fram á það að arðgreiðslu Cargo Express ehf., sem Wow hafði áður keypt af Títan, sem er í eigu Skúla Mogensem, til Títan í febrúar í fyrra verði rift. Samkvæmt skýrslu Deloitte til skiptastjóra var greiðsla fyrir hlutinn í félaginu ekki á gjalddaga fyrr en í lok apríl en arðgreiðslur vegna félagsins áttu að koma til frádráttar kaupverðinu. Umrædd upphæð nam 108 milljónum króna.

Árangurslausar fjárnámsgerðir eru oftar en ekki undanfari þess að gjaldþrotaskipta sé krafist yfir einstaklingum eða lögaðilum og því mögulegt að farið verði fram á að Títan verði sett í þrot vegna þessa.