Mennirnir sem sérstakur saksóknari hefur kært til ríkissaksóknara vegna leka á upplýsingum um rannsókn embættisins á Milestone sögðu Grími Sigurðssyni, skiptastjóra þrotabúsins, að þáverandi yfirmenn sínir vissu af því að þeir ætluðu að helga starf sitt ráðgjafastörfum þegar þeir buðu fram þjónustu sína við rannsókn á gögnum og skýrslugerð fyrir þrotabú Milestone.  Hann harmar að svo hafi ekki verið og ætlar að kanna réttarstöðu þrotabús Milestone vegna þessa.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu Gríms í tengslum við umfjöllun um mennina.

Í yfirlýsingunni telur Grímur til að Milestone hafi verið eitt stærsta fjárfestingarfélag landsins. Lýstar kröfur hafi numið rúmum 95 milljörðum króna og umfangið eftir því mikið.

„Við rannsókn á viðskiptum Milestone, samskiptum starfsmanna, eigenda og viðskiptavina þess þurfti að vinna með þúsundir tölvupósta á þriggja til fjögurra ára tímabili, bókhaldsskjöl margra ára, sem og önnur gögn þrotabúsins. Það var því ljóst að verkefnið hlypi á þúsundum vinnustunda,“ skrifar Grímur í yfirlýsingunni.

Hann heldur áfram:

„Í þrotabúi af þessari stærðargráðu er óhjákvæmilegt að keypt sé aðstoð sérfræðinga. Þannig hafa slitastjórnir stóru bankanna leitað til erlendra rannsóknarfyrirtækja sem sérhæfa sig í umfangsmiklum rannsóknum. Íslensk fyrirtæki sem bjóða slíka þjónustu eru hins vegar fá ef nokkur. Það var því talið henta vel þegar nýtt fyrirtæki, P3 sf., bauð fram þjónustu við rannsókn á gögnum og skýrslugerð fyrir þrotabú Milestone.

Eitt af lögboðnum hlutverkum skiptastjóra er að rannsaka rekstur hins gjaldþrota félags til að kanna hvort eignir bús hafa rýrnað með ólögmætum hætti til tjóns fyrir kröfuhafa. Getur það leitt til þess að málum er vísað til lögreglu til frekari rannsóknar og/eða að höfðuð eru riftunarmál til endurheimtu eigna. Skiptastjóri þrotabús Milestone hefur átt gott og faglegt vinnusamband við embætti sérstaks saksóknara og starfsmenn þess.

Skiptastjóri taldi mikils virði að reyndir rannsóknarlögreglumenn ynnu þessa vinnu með þeim skipulagða hætti sem hún krefðist. Umfangsmikil rannsókn þeirra skilaði þrotabúinu miklu magni af gögnum um rekstur Milestone, auk skýrslu um félagið. Skiptastjóri telur að öll þau gögn, sem afhent voru á grundvelli rannsóknarinnar hafi annaðhvort verið í eigu þrotabúsins eða þrotabúinu heimilt að fá aðgang að þeim á grundvelli gjaldþrotalaga.

Nú virðist ljóst að samband starfsmannanna tveggja við yfirmenn sína hjá lögreglunni var ekki með þeim hætti sem lýst var fyrir skiptastjóra og hefur embætti sérstaks saksóknara kært athæfi þeirra til ríkissaksóknara. Skiptastjóri harmar þetta mjög og hefur veitt embætti sérstaks saksóknara allar upplýsingar um störf félagsins og umræddra lögreglumanna fyrir þrotabúið. Skiptastjóri mun jafnframt kanna réttarstöðu búsins vegna þessa máls.“

Yfirlýsingunni lýkur með orðunum:

„Þá skal að lokum ítrekað að við skipti á þrotabúi Milestone hefur í öllu verið farið eftir skýrum fyrirmælum laga um gjaldþrotaskipti. Kæra sérstaks saksóknara beinist enda ekki með neinum hætti að þrotabúi Milestone eða störfum skiptastjóra.“