John Ray, nýskipaður skiptastjóri þrotabús hinnar föllnu rafmyntakauphallar FTX, segist aldrei á sinni 40 ára starfsævi hafa séð aðra eins bresti í yfirsýn og stjórnun fyrirtækis né annan eins skort á áreiðanlegum fjárhagsupplýsingum. CNBC greinir frá.

Yfirlýsingin – sem ein og sér er ansi afdráttarlaus – er þeim mun meiri áfellisdómur í ljósi þess að á téðri starfsævi hefur hann meðal annars starfað sem skiptastjóri hins alræmda orkurisa Enron, hvers fall var eitt stærsta hneykslismál aldarinnar.

Ray lét ummælin falla í tilkynningu til gjaldþrotaréttar (e. bankruptcy court) í Delaware-ríki í Bandaríkjunum, þar sem hann hét því að aðstoða yfirvöld við rannsókn þeirra á Sam Bankman-Fried, stofnanda og þar til nýlega framkvæmdastjóra FTX.

Í tilkynningunni upplýsti Ray réttinn ennfremur um að efnahagsreikningi rafmyntakauphallarinnar og systurfyrirtæki hennar, Alameda Research – sem Bankman-Fried millifærði 10 milljarða dala af fjármunum viðskiptavina til án þess að greina frá því – væri ekki treystandi enda væri hann óendurskoðaður og saminn í stjórnartíð Bankman-Fried.