Rick Snyder, ríkisstjóri Michigan-fylkis í Bandaríkjunum, tilkynnti í gær að sérfræðingur í skuldamálum og fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækja hafi verið settur yfir fjármálum bílaborgarinnar Detroit. Borgin stendur höllum fæti og útlit fyrir að hún fari í þrot verði ekkert gert í skuldamálum hennar. Sérfræðingurinn heitir Kevyn Orr og þykir mikill reynslubolti á sínu sviði enda snéri hann við rekstri bílarisans Chrysler á sínum tíma.

Bandaríska dagblaðið The New York Times segir á vefsíðu sinni að fari svo að Detroit fari á hliðina þá myndi það marka spor í sögu landsins.

Blaðið hefur eftir Orr að í gær hafi hann á blaðamannafundi hvatt borgarbúa til að standa saman í fjárhagslegri uppstokkun borgarinnar. Hann vilji nefnilega síður þurfa að leita til dómsstóla og óska eftir greiðslustöðvun borgarinnar. Blaðið segir að með skipun Orr hafi hann fengið ægivald yfir borginni. Hann sé t.d. með meiri völd en borgarstjóri og borgarstjórn. Hann hafi líka allt fjárhagslegt vald borgarinnar í sínum höndum og geti ákveðið sjálfur hvaða fyrirtæki í eigu borgarinnar verði seld og hver ekki.