Þrotabú Víðis hefur höfðað tvö riftunarmál gegn fyrrverandi eigendum verslunarinnar. Samtals eru um 125 milljónir króna undir.

Málin tvö voru þingfest í febrúar og eru nú til meðferðar fyrir dómstólum. Smærra málinu er beint að Eiríki Sigurðssyni en þar er krafist riftunar á um fimm milljóna greiðslu launa og launatengdra gjalda til hans. Síðara málið tengist Helgu Gísladóttur en þar er gerð krafa um að launagreiðslu og greiðslu tiltekinnar skuldar verði rift. Samtals eru kringum 120 milljónir undir í því máli.

Ógjaldfært hálfu ári fyrir þrot

„Við teljum að félagið hafi verið ógjaldfært í desember 2017 og því hefði borið að gefa það upp til þrotaskipta þá. Eigendurnir fyrrverandi hafa krafist frávísunar og á döfinni er málflutningur um þá kröfu,“ segir Valtýr Sigurðsson, lögmaður og skiptastjóri þrotabús Víðis. Verslanir Víðis voru hins vegar í rekstri fram í júní á síðasta ári þegar bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta. Alls barst 141 krafa í búið en samanlögð fjárhæð þeirra var 693 milljónir króna. Aðeins 24 milljónir króna voru til í búinu til að greiða kröfuhöfum í desember síðastliðnum samkvæmt frétt Morgunblaðsins um skipti búsins. Hluti fjárins kom til þar sem skiptastjóri ákvað að opna tvær verslanir Víðis eftir gjaldþrotið og selja vörur á hálfvirði.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .