Einkavæðingarnefnd slóvensku ríkisstjórnarinnar tilkynnti í dag að nefndin hyggðist ganga til viðræðna við Skipti annars vegar og fjárfestingarsjóðina Bain Capital og Axos Capital hins vegar sem buðu sameiginlega í félagið, um kaup á Telekom Slovenije. Þetta er gert á grundvelli tilboða sem aðilar gerðu fyrr í dag. Fram kom að ekki yrðu frekari viðræður við ungverska fyrirtækið Magyar Telekom, sem er í eigu Dautsche Telekom sem hefur einnig verið meðal bjóðenda. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

“Við erum hóflega bjartsýn eftir þessa niðurstöðu nefndarinnar," segir Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Skipta, í fréttatilkynningu. "Nú göngum við til viðræðna við Einkavæðingarnefndina og væntum þess að niðurstaða liggi fyrir fljótlega. Frekari dráttur málsins er hins vegar óheppilegur vegna fyrirhugaðrar skráningar Skipta í OMX Kauphöllina.”

Til stendur að selja 49,13% hlut í Telekom Slovenije til kjölfestufjárfestis, sem mun í kjölfarið þurfa að gera öðrum hluthöfum í félaginu yfirtökutilboð, að undanskildu slóvenska ríkinu sem halda mun eftir 25% hlut. Samtals er því um að ræða allt að 75% hlut í Telekom Slovenije. Tilboð Skipta í Telekom Slovenije er með hefðbundnum fyrirvörum og bundið trúnaði samkvæmt samkomulagi við slóvensk stjórnvöld.

Telekom Slovenije er leiðandi fjarskiptafyrirtæki í Slóveníu, auk þess að vera með vaxandi starfsemi í nágrannalöndunum. Hjá félaginu starfa um 4.400 starfsmenn. Tekjur félagsins á fyrstu 9 mánuðum ársins 2007 námu alls um 590 milljónum Evra eða um 54 milljörðum króna og hagnaður félagsins fyrir skatta nam um 102 milljónum evra eða um 9,4 milljörðum íslenskra króna.