Fjarskipta- og upplýsingatæknifyrirtækið Skipti er skráningarhæft í Kauphöllina líkt og staðan er nú, því félagið er með yfir þúsund hluthafa. Þennan fjölda hlutahafa má að miklu leyti rekja til þess þegar Ríkissjóður seldi lítinn hluta í Landssímanum árið 2001. Tíu stærstu hluthafar Skipta ráða yfir 97,9% hlut.

„Eins og eignarhaldi á félaginu er í dag, bæði hvað fjölda hluthafa og dreifingu, þá er félagið skráningarhæft," segir Pétur Óskarsson, framkvæmdastjóri samskiptasviðs Skipta, í samtali við Viðskiptablaðið.

Hlutafjárútboð Skipta, móðurfélag Símans, hófst í gær og stendur til fimmtudags. Lögum samkvæmt mega stjórnendur Skipta ekki tjá sig um gang mála í útboðinu, fyrr en það er afstaðið. Stefnt er að því að skrá félagið á markað 19. mars. Kaupþing býður til sölu allan hlut sinn eða 27,8% og stærsti hluthafi Skipta, Exista býður 2,2%. Þegar Síminn var einkavæddur sumarið 2005 var það hluti af kaupsamningi að bjóða 30% af félaginu almenningi og öðrum fjárfestum til kaups og skrá félagið á markað.

Miðað við útboðsgengið er 30% í félaginu metið á um 14,7-17,9 milljarða króna og félagið allt á 49-60 milljarða króna. Skipti verður fjórða stærsta rekstrarfélagið í Kauphöllinni, að sögn greiningardeildar Glitnis.