Skipti hf. hefur í dag gert tilboð í slóvenska fjarskiptafélagið Telekom Slovenije. Í tilkynningu kemur fram að til stendur að selja 49,13% hlut í félaginu í þessari umferð til kjölfestufjárfestis, sem mun í kjölfarið þurfa að gera öðrum hluthöfum í félaginu yfirtökutilboð, að undanskildu slóvenska ríkinu sem halda mun eftir 25% hlut. Samtals er því um að ræða allt að 75% hlut í Telekom Slovenije. Tilboð Skipta í Telekom Slovenije er með hefðbundnum fyrirvörum og bundið trúnaði samkvæmt samkomulagi við slóvensk stjórnvöld.

Einkavæðingarnefnd slóvensku ríkisstjórnarinnar fundaði um tilboðin í dag og tilkynnti að fundi loknum að þrír aðilar hefðu skilað inn tilboðum. Auk Skipta voru það ungverska fyrirtækið Magyar Telekom, sem er í eigu Deutsche Telekom og fjárfestingarsjóðirnir Bain Capital og Axos Capital sem buðu sameiginlega í félagið. Niðurstaða nefndarinnar var að allir þrír aðilar hafa verið beðnir um að skila inn nýjum tilboðum fyrir 15. janúar næstkomandi. Þá hyggst nefndin koma saman að nýju og tilkynna um endanlega niðurstöðu.

Telekom Slovenije er leiðandi fjarskiptafyrirtæki í Slóveníu, auk þess að vera með vaxandi starfsemi í nágrannalöndunum. Hjá félaginu starfa um 4.400 starfsmenn. Tekjur félagsins á fyrstu 9 mánuðum ársins 2007 námu alls um 590 milljónum Evra eða um 54 milljörðum króna og hagnaður félagsins fyrir skatta nam um 102 milljónum evra eða um 9,4 milljörðum íslenskra króna.