Skipti hf. hafa undirritað samkomulag við lánveitendur félagsins. Í samkomulaginu felst meðal annars að Skipti greiða niður alls um 16,7 milljarða króna af lánum félagsins. Á árinu 2010 greiddi Skipti alls 5,1 milljarð inn á lán félagsins og nema því  heildargreiðslur Skipta til lánveitenda um 21,8 milljarði króna undanfarna mánuði. Heildarafborganir frá hruni íslensks efnahagslífs nema alls um 27 milljörðum króna. Sambankalán Skipta mun lækka úr um 41,4 milljörðum króna í um 24,7 milljarða króna við þessa greiðslu. Engar skuldir eru afskrifaðar og öll lán Skipta eru eftir sem áður í skilum.

Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallar. Þar segir ennfremur:

„Viðræður hafa staðið um nokkurt skeið um að Skipti greiði lán félagsins hraðar niður en upphaflegir lánasamningar gerðu ráð fyrir. Lausafjárstaða  Skipta  hefur verið mjög sterk, félagið átti í lok árs um 20,0 milljarða króna í handbæru fé.

Í kjölfar efnahagshrunsins á Íslandi hækkuðu skuldir Skipta umtalsvert líkt og flestra annarra íslenskra fyrirtækja. Þeir fjármunir sem nú eru greiddir hafa að mestu fengist við sölu erlendra eigna félagsins.“