Stjórn Skipta hefur ákveðið að hefja fjárhagslega endurskipulagningu. Leitað verður samstarfs við lánardrottna félagsins og standa vonir til þess að tillögur liggi fyrir á fyrsta eða öðrum ársfjórðungi þessa árs. Skipti er móðurfélag Símans, Mílu, Skjásins.

Fram kemur í tilkynningu að líklegt sé að tillögurnar muni fela í sér að óskað verði eftir því við eigendur skráðra skuldabréfa að þeir fallist á skilmálabreytingar á bréfunum og/eða breytingu skulda í hlutafé.

Þá segir í tilkynningunni að Skipti hafi á síðustu tveimur árum unnið á grundvelli þriggja ára áætlunar sem miðar að því að bæta rekstur félagsins og þar með auka virði þess. Sú áætlun hafi gengið eftir og afkoma félagsins batnað verulega.

Þá segir að bráðabirgðauppgjör síðasta árs liggi fyrir. Samkvæmt því verður rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) Skipta um 8.000 milljónir króna án einskiptisliða samanborið við 6.230 milljónir króna árið 2011 og 5.278 milljónir króna árið 2010.