Skipti hefur skrifað undir samning um kaup á öllu hlutafé í danska fjarskiptafyrirtækinu Ventelo A/S sem var hluti af Ventelo Group sem auk þess er með starfsemi í Noregi og Svíþjóð. Kaupverðið er trúnaðarmál á milli kaupanda og seljanda. Höfuðstöðvar Ventelo A/S eru í Kaupmannahöfn og mun Rasmus Helmich, forstjóri Ventelo Denmark áfram stýra fyrirtækinu en hann hefur verið hjá félaginu frá upphafi.

Ventelo Denmark er fjarskiptafyrirtæki sem býður upp á heildarlausnir í fjarskiptaþjónustu á fyrirtækjamarkaði með sérstaka áherslu á gagnaflutning og internetþjónustu. Starfsmannafjöldi er 50 manns og eru um 5.000 fyrirtæki í viðskiptum við fyrirtækið þar á meðal danska þingið, Krak internet sem er ein stærsta leitarvélin í Danmörku, Kunde & Co., Carlsberg, Gallup, Radio 2 og Securitas.

Ventelo Denmark er í dag leiðandi í IP samskiptalausnum á danska markaðinum eftir að félagið keypti fyrirtækið WebPartner í janúar 2006. WebPartner var leiðandi í þjónustu á IP samskiptalausnum fyrir fyrirtæki og hafði hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir árangur sinn. Computerworld valdi WebPartner til dæmis besta fjarskiptafyrirtækið í Danmörku á fyrirtækjamarkaði árin 2004, 2005 og 2006.

Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Skipta, er ánægður með kaupin og segir starfsemi Ventelo Denmark styðja vel við stefnu Skipta um vöxt á erlendum markaði. Eitt af lykilmarkmiðum Skipta er að ná sterkri stöðu í fjarskiptaþjónustu við smærri og meðalstór fyrirtæki á Norðurlöndunum og í Bretlandi ásamt því að fylgja eftir útrás íslenskra fyrirtækja í Danmörku og Norður Evrópu. Í þeim tilgangi hefur verið komið á fót skrifstofu í Danmörku sem Hreinn Jakobsson stýrir.

Um Skipti hf.

Skipti hf. er eignarhaldsfélag um rekstur fyrirtækja á sviði fjarskipta, upplýsingatækni og afþreyingar. Innan samstæðunnar eru Síminn, Míla, Fasteignafélagið Jörfi, Já, Skjárinn, Sensa, Tæknivörur, Trackwell On-Waves og Radiomiðun. Erlend dótturfélög eru fjarskiptafélögin Aerofone í Bretlandi, Business Phone og Ventelo í Danmörku, og upplýsingatæknifyrirtækið Sirius IT sem er með starfsemi í Noregi, Svíþjóð og Danmörku.