Þarna erum við að taka eignir sem nýtast illa í rekstrinum í dag og koma þeim í ágætt verð til alþjóðlegra aðila,“ sagði Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, á uppgjörsfundi Sýnar í nóvember um viðræðurnar um söli svokallaðra óvirkra fjarskiptainnviða félagsins.

„Þetta skiptir gríðarlegu máli fyrir fjarskiptabransann í dag að fá inn nýja öfluga innviðafjárfesta. Þá geta félögin sem eru fyrir einbeitt sér að þjónustu við viðskiptavini," bætti Heiðar við.

Sjá einnig: Sýn og Nova að selja bandarískum risa

Sýn og Nova eru langt komin með að ljúka sölu á óvirkum fjarskiptainnviðum fyrir um 13 milljarða króna til félags í stýringu hjá Digital Colony líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um í vikunni . Félögin munu svo leigja kaupendum innviðina á ný. Þá vinnur Digital Colony að 8-9 milljarða króna skuldabréfaútboð sem kynnt hefur verið fyrir lífeyrissjóðum og öðrum innlendum fjárfestum.

Heiðar hefur á síðstu árum kallað eftir að fjárfesting í innviðum hér á landi verði aukin. Hann er stjórnarformaður og fjárfestir í framtaksfjárfestingafélaginu Innviðir fjárfestingar slhf., sem hefur á stefnuskránni innviðafjárfestingar hér á landi.

Sýn hefur áður gefið út að um 6 milljarða króna söluhagnaður myndist við söluna og að félagið muni gera endurleigusamning til 20 ára. Sýn segir að um 200 af 600 sendastöðum félagsins verði seldar.

Í kynningu Sýnar var bent á að salan hér á landi væri í takt við alþjóðlega þróun. Aðskilnaður virkra og óvirkra fjarskiptainnviða hafi hafist í Bandaríkjunum fyrir um tuttugu árum og í Evrópu fyrir fimm til tíu árum. Vodafone Group í Bretlandi færði til að mynda fjarskiptainnviði samstæðunnar nýlega í sérstakt félag og hefur stefnt að því að skrá það félag á markað.

Með óvirkum fjarskiptainnviðum er alla jafna átt við annan búnað en fjarskiptasendana sjálfa, til að mynda möstur, byggingar, girðingar tengdar fjarskiptakerfinu og í einhverjum tilfellum öryggis-, hita- og rafmagnskerfi slíkra innviða.

Digital Colony, er eitt stærsta félag heims á sýnu sviði með um 2.800 milljörðum króna. Félagið lauk síðast í vikunni fjármögnun 4,1 milljarðs dollara innviðafjárfestingasjóðs, eða sem samsvarar ríflega 500 milljörðum króna. Í frétt Bloomberg um málið kemur fram að lífeyrissjóðir opinberra starfsmanna í Texas, Virginíu, og Orange-sýslu í Kaliforníu hafi fjárfest í sjóðnum sem og Wafra Inc., fjárfestingafélag í eigu kúveiska ríkisins.

Digital Colony er hluti af samstæðu Colony Capital sem er með um 6.000 milljarða króna í stýringu og var stofnað af Thomas J. Barrack Jr., nánum bandamanni Donalds Trump. Colony hafði lengi einbeitt sér að fasteignafjárfestingum og lánasöfnum, ekki síst í vandræðalánum. Á síðustu árum hefur það hins vegar aukið áherslu sína á fjárfestingar í fjarskiptainnviðum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .