Skipti hf. hafa selt upplýsingatæknifyrirtækið Sirius IT sem er með starfsemi í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Kaupandi er Norska upplýsingatæknifyrirtækið Visma. Í fréttatilkynningu frá Skiptum hf. kemur fram að greitt verði fyrir hlutina í reiðufé en kaupverðið sé trúnaðarmál. Heildarhagnaður Skipta vegna fjárfestingarinnar nemur um 5,5 milljörðum króna.  Í kjölfar sölunnar áforma Skipti hf. að greiða skuldir niður hraðar en áætlað var og munu skuldir Skiptasamstæðunnar lækka um 8,7 milljarða króna við söluna. Sirius IT hefur reynst afar farsæl fjárfesting fyrir Skipti. Á rúmum þremur árum hefur fyrirtækið náð mjög góðri stöðu á norrænum upplýsingatæknimarkaði. Starfsfólk og stjórnendur hafa unnið frábært starf og gert fyrirtækið að því sem það er í dag. Það er ljóst að aðstæður hafa breyst hjá Skiptum, við leggjum höfuðáherslu á kjarnastarfsemi fyrirtækisins, fjarskipti og samtvinnun fjarskipta og upplýsingatækni á heimamarkaði okkar, Íslandi. Visma er í mjög góðri stöðu til að halda áfram að þróa Sirius IT sem fyrirtæki, í samvinnu við stjórnendur og starfsfólk. Söluverðið er mjög ásættanlegt og það er jákvætt að innleysa hagnað upp á 5,5 milljarða króna af erlendri fjárfestingu á þessum tímum. Við munum nýta þá fjármuni til að styrkja fjárhagsstöðu Skipta og greiða niður skuldir hraðar en áformað var,“ er haft eftir Brynjólfi Bjarnasyni, forstjóra Skipta hf. í fréttatilkynningu. Í nóvember 2006 stofnaði Skipti Sirius IT, í samvinnu við lykilstjórnendur, til að kaupa þann hluta af starfsemi finnska upplýsingatæknifyrirtækisins TietoEnator sem einkum sinnir opinberum aðilum. Rekstur Sirius hefur gengið vel og fyrirtækið skilað góðri afkomu. Á seinasta ári námu tekjur félagsins 435 milljónum danskra króna, sem nemur um 9,1 milljarði íslenskra króna. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) var 66 milljónir danskra króna, um 1,4 milljarðar íslenskra króna. Visma, sem nú kaupir Sirius IT, hefur verið samstarfsaðili fyrirtækisins  í þróun lausna fyrir lyfsölumarkað sem hafa gengið afar vel.