Skipti, móðurfélag Símans og tengdra fyrirtækja, hagnaðist um 466 milljónir króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Þetta er talsvert betri afkoma en í fyrra þegar félagið tapaði tæpum 2,6 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins.

Fram kemur í uppgjöri Skipta að hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði, án einskiptisliða, nam 4,2 milljörðum króna samanborið við 3,8 milljarða á sama tíma í fyrra. Vaxtaberandi skuldir námu 27,2 milljörðum króna í lok tímabilsins en þær voru áður 62,1 milljarður króna.

Eiginfjárhlutfall fór úr 10,2% í fyrra í 56,6% nú og nam eigið fé í lok júní 43,7 milljörðum króna.