"Það hefur verið stórelft eftirlit með tilkomu gjaldeyriseftirlits með sérstakri einingu innan Seðlabankans. Það sem skiptir líka sköpum er að reglugerðin var hert verulega um mánaðarmótin október og nóvember á síðasta ári. Sú breyting sem gerð var á reglugerðinni þá hefur lokað úti allar aflandskrónur. Stöðugur straumur þeirra heim var í rauninni megin farvegur sniðgöngu reglnanna. Eftir að þessi reglugerðarbreyting var gerð hefur gengið styrkts og engin inngrip verið á gjaldeyrismarkaði frá því í byrjun nóvember. Það virðist vera orsakasamhengi þar á milli," sagði Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri, í morgun aðspurður hver væri megin ástæða þess að gjaldeyrishöftin virtust halda betur.

Arnór sagði að þau mál sem væru til skoðunar innan gjaldeyriseftirlitsins skiptu hundruðum en væru á mismunandi stigum. Hann gæti ekki talað um einstök mál. Frekari grein verði gerð fyrir þessum málaflokki í ársskýrslu Seðlabankans sem von er á í næstu viku.