Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, var gestur CNBC í London í morgun. Meðal þess sem var rætt var afstaða ríkisstjórnarinnar til aðildar að Evrópusambandinu. Bjarni sagði það hafa verið Íslendingum til tekna að standa utan Evrópusambandsins í eftirköstum hrunsins.

„Það að vera á evrusvæðinu hefur veitt löndum eins og Grikklandi og Írlandi skjól svo það hlýtur að vera markmið ykkar að verða aðilar þar líka, ekki satt?“ Spyr þáttastjórnandi CNBC fjármálaráðherra.

„Ég er ekki svo viss um að sá stöðugleiki sem þú vísar til hjá mörgum Evrópskum þjóðum sé það sem við erum að leitast eftir því þú vilt ekki vera staðnaður," sagði Bjarni og vísaði þar til þeirrar stöðu sem lönd eins og Grikkland eru í í efnahagslegu tilliti. „Það sem við höfum nú þegar sem aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu er aðgangur að innri markaðnum og að mörgum þeim kostum sem fulla aðild að Evrópusambandinu myndi veita okkur,“ svaraði Bjarni.

Lykilatriði að samþykkja ekki Icesave

Í viðtalinu var fjármálaráðherra einnig inntur eftir svörum við öðrum atriðum sem snertu efnahagskreppuna: „Hvað gerðist í tengslum við það sameiginlega brjálæði þjóðarinnar að verða vogunarsjóður í tíu ár, sem fjaraði síðan skyndilega undan?“ Spyr þáttastjórnandi CNBC.

„Eins og þú manst þá var Ísland með hæstu einkunn hjá matsfyrirtækjum á þeim tíma, peningar voru mjög ódýrir á alþjóðamörkuðum og herskáir bankamenn fóru fram úr sér. Í litlu hagkerfi með sinn eigin gjaldmiðil getur safnast upp mikil áhætta vegna þessa og bankarnir voru skuldsettir sem nam þrettánfaldri landsframleiðslu, sem hefur verið undið ofan af á seinustu árum. Eins og ég hef sagt þá skipti það sköpum að hafa eigin gjaldmiðil til að það gæti orðið að veruleika og líka ákvörðunin sem var tekin árið 2008, að þjóðnýta ekki einkaskuldir bankanna,“ svaraði Bjarni til

„En Gordon Brown vandaði ykkur ekki kveðjurnar vegna þessa ef ég man rétt? Ég held að hann hafi beitt ykkur lögum sem við höfðum notað gegn hryðjuverkamönnum, ekki satt?“

„Það er alveg rétt en það hefur verið gengið frá því í millitíðinni. Það kom í ljós að Íslendingum bar ekki skylda til að gera skuldir bankanna að sínum eigin,“ svaraði Bjarni.

Viðtal CNBC í London við Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra má sjá í heild sinni hér.