Skipti töpuðu 2,6 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Þetta er 700 milljónum meira tap en á sama tíma í fyrra. Fram kemur í uppgjöri Skipta að tapið skýrist einkum af fjármagnskostnaði vegna mikilla skulda og virðisrýrnunar.

Skipti er móðurfélag Símans, Mílu og Skjámiðlar sem rekur Skjá Einn.

Haft er eftir Steini Loga Björnssyni, forstjóra Skipta, að afkoma félagsins sé óviðunandi vegna alltof hárra skuldastöðu og fjármagnskostnaði sem því fylgir. Undirbúningur að endurfjármögnun félagsins er hafinn og mun koma í ljós á næstu mánuðum hvernig til tekst.

Skuldafjallið er Skiptum dýrt

Fram kemur í uppgjöri Skipta að tekjur námu 14,1 milljarði króna og er það 4% aukning á milli ára. Tekjurnar námu 13,5 milljörðum króna á sama tíma í fyrra.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 3,4 milljörðum króna samanborið við 3,5 milljarða fyrir sama tímabil í fyrra. Samdrátturinn þessu samkvæmt nam 100 milljónum króna.

EBITDA nam 3,8 milljörðum króna á fyrri helmingi ársins samanborið við 3,1 milljarða í fyrra. Leiðrétt hefur verið fyrir einskiptiskostnaði, þ.e. sekt Samkeppniseftirlits og var greidd í maí. Sektin var færð til bókar í fyrra.

Handbært fé frá rekstri Skipta án vaxta og skatta nam 3 milljörðum króna samanborið við 1,4 milljarð á sama tíma í fyrra. Eftir vexti og skatta nam handbært fé frá rekstri 1,9 milljarði króna. Fjármagnskostnaður nam 2,9 milljörðum króna en þar af námu verðbætur 800 milljónum króna.

Vaxtaberandi skuldir námu 55 milljörðum króna við lok tímabilsins. Það er tveimur milljörðum kmeira en í upphafi árs. Eigið fé Skipta er 9,0 milljarðar króna og eiginfjárhlutfall er 12%.