Skipti tapaði 3,6 milljörðum króna á fyrsta fjórðungi, sem skýrist einkum af gengisþróun íslensku krónunnar, samanborið 1,4 milljarð króna hagnað á sama tíma fyrir ári.

Fjármagnsgjöld voru 5,5 milljarðar króna en þar af nam gengistap 4,4 milljörðum króna. Á sama tíma fyrir ári námu fjármagnstekjur 568 milljónum króna.

Salan jókst um 20% milli ára og nam 8,9 milljörðum króna. Þessi aukning skýrist einkum af innkomu dönsku fjarskiptafélaganna í samstæðuna auk innra vaxtar.

Eiginfjárhlutfall félagsins lækkar í 30,4% úr 34,4% frá sama tíma fyrir ári.

„Þetta hefur verið viðburðaríkt tímabil hjá Skiptum og ánægjulegt að góð afkoma er af reglulegri starfsemi hvort sem litið er til fjarskipta eða upplýsingatækni,“ segir  Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Skipta í tilkynningunni.

„Gengisþróun íslensku krónunnar hefur hins vegar verið okkur afar óhagstæð og þrátt fyrir gengisvarnir félagsins skýrir veiking krónunnar tapið sem er á tímabilinu. Framundan eru krefjandi tímar fyrir stjórnendur og starfsfólk þar sem búast má við almennt minnkandi eftirspurn á Íslandi vegna þróunar efnahagsmála. Á slíkum tímum má hins vegar oft finna tækifæri fyrir fjárhagslega sterk félög á borð við Skipti og við munum fylgjast grannt með þróun mála á markaði næstu mánuði og misseri,” segir hann.