Sala Skipta, eignarhaldsfélagi Símans, á fyrri helming ársins 2007 nam 15.514 milljónum króna, samanborið við 11.754 milljónir króna árið áður, sem er 32% aukning.

Hækkunin skýrist að hluta til af tekjum frá Aerofone, Sirius IT og Sensa sem eru ný fyrirtæki í samstæðunni. Auk þess hefur sala á þjónustum Símans aukist í öllum þjónustuflokkum nema talsímaþjónustunni.

Hagnaður á fyrri helmingi ársins var 2,4 milljarðar króna - sem er um 16% af tekjum - samanborið við 6,4 milljarða króna neikvæða afkomu fyrir sama tímabil árið 2006.

Styrking krónunnar hefur haft mjög jákvæð áhrif á rekstur félagsins þar sem nokkuð stór hluti lána þess er í erlendri mynt.

Rekstrarhagnaður samstæðunnar fyrir afskriftir (EBITDA) var 4.317 milljónir króna, miðað við 3.969 milljónir króna fyrir árið áður. Það er aukning um 348 m.kr eða 8,7%. EBITDA hlutfallið er nú 27,5% samanborið við 33,4% árið áður.

Skipti hefur keypt fyrirtæki í upplýsingatæknigeiranum en sá markaður skilar að jafnaði lægri EBITDA hlutfalli en fyrirtæki í fjarskiptageiranum en á móti eru fjárfestingar að jafnaði lægri í upplýsingatæknigeiranum.
Afskriftir félagsins námu 2.001 m.kr. yfir tímabilið sem er nánast óbreytt frá fyrra ári.