Móðurfélag Símans, Skipti, er eitt tólf fyrirtækja sem buðu í 49,13% hlut í slóvenska fjarskiptafyrirtækinu Telekom Slovenije, sem er að 74% hluta í eigu slóvenska ríkisins. Þetta kemur fram í frétt Telegeograph CommsUpdate.

Hin félögin eru króatíska T-Hrvatski Telekom, Magyar Telekom frá Ungverjalandi, Oger Telecom sem er meðal annars móðurfélag Turk Telekom, breski fjárfestingasjóðurinn Providence Equity, slóvenski smásalinn EngroTus, Macquarie Bank frá Ástralíu, sjóðurinn CEP III frá Lúxemborg, bresk-þýska samstæðan Bain Capital & Axos Capital í samvinnu við BT Globalne frá Slóveníu, alþjóðlegi fjárfestingasjóðurinn Apax Partners Worldwide, breska fjárfestingafélagið Babcock & Brown og að lokum SAC Private Capital Group.
Slóvenska ríkið mun síðar í þessum mánuði velja nokkur fyrirtæki sem fara áfram í aðra tilboðsumferð um kaupin á Telekom Slovenije. Athyglisvert er að bæði T-Hrvatski Telekom og Magyar Telekom sendu inn tilboð, en bæði eru þau í meirihlutaeign Deutsche Telekom. Orðrómur hefur verið uppi í nokkurn tíma um að Magyar Telekom muni bera sigur úr býtum, enda njóti fyrirtækið stuðnings Deutsche Telekom.