Skipti, móðurfélag Símans, tapaði tæpum 10,6 milljörðum króna í fyrra. Þetta er talsvert verri afkoma en árið 2010 þegar félagið tapaði rúmum 2,5 milljörðum. Tapið nú skýrist einkum af rúmlega 4,4 millljarða króna niðurfærslu á kröfum þrotabúa bankanna auk virðisrýrnunar óefnislegra eigna, sem alla jafna er kölluð viðskiptavild, upp á 2,7 milljarða króna. Til samanburðar nam niðurfærslan 4,9 milljörðum króna í fyrra.

Fram kemur í uppgjöri Skipta að sala hafi numið 27,6 milljörðum króna í fyrra samanborið við 33,6 milljarða sölu árið 2010. Lækkunin skýrist einkum af því að í júlí 2010 seldi Skipti Sirius IT og var félagið hluti af samstæðunni fram að miðju ári 2010. Auk þess seldu Skipti Já í lok árs 2010 og Tæknivörur í ágúst árið 2011.

Rekstrarhagnaður samstæðu Skipta fyrir afskriftir (EBITDA) var sex milljarðar króna miðað við fimm milljarða árið 2010. Hækkun EBITDA skýrist í meginatriðum af hagræðingaraðgerðum í rekstri.

EBITDA hlutfallið var 21,5% en var 22,3% sé ekki tekið tillit til einskiptiskostnaðar.  EBITDA hlutfallið var 14,9% árið 2010.

Heildareignir Skipta námu 79,4 milljörðum króna um síðustu áramót sem er 25% samdráttur á milli ára. Það skýrist að mestu af fyrirframgreiðslu til lánveitenda. Vaxtaberandi skuldir voru 60,8 milljörðum um áramót en voru 75,4 milljarðar árið áður.

Eigið fé félagsins nam rúmum 11,5 milljörðum króna um áramótin og var eiginfjárhlutfall félagsins 14,5%.

Uppgjör Skipta