Veritas Capital sérhæfir sig í rekstri fyrirtækja á sviði heilbrigðisþjónustu og er móðurfélag fyrirtækjanna Vistor hf., Distica hf., Artasan ehf., MEDOR ehf. og Holdor ehf. Fyrirtækið er kjölfesta samstæðunnar og veitir þjónustu til dótturfyrirtækjanna svo þau geti einbeitt sér að kjarnastarfsemi sinni, sem lúta aðallega að sölu og dreifingu á lyfjum og lækningatækjum, ásamt heilsuvörum. Hrund Rudolfsdóttir hefur verið forstjóri Veritas frá árinu 2013.

Hrund lauk viðskiptafræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1994 og fór í kjölfarið strax í frekara nám erlendis sem hún segir að hafi verið frekar óvenjulegt á þeim tíma. „Það voru ekki nema einn eða tveir úr árganginum sem gerðu það strax eftir nám. Það sem rak mig svona snemma af stað til Danmerkur í mastersnám var að maðurinn minn, sem er læknir, var á leiðinni í sérnám. Við völdum Kaupmannahöfn því það var stað­ setning sem hentaði okkur báðum og við enduðum á að búa þar í sjö ár.“ Eftir að Hrund kláraði mastersnámið hóf hún störf hjá dönsku ráðstefnufyrirtæki og síðar íslensku fyrirtæki sem þá hét Netverk sem hún starfaði fyrir til ársins 2001, þegar hún var ráðin til Lyf og heilsu á Íslandi.

Fyrstu skrefin í heilbrigðisgeiranum

„Þegar ég kom heim réð ég mig sem rekstrarstjóra hjá Lyf og heilsu og árið 2003 tók ég svo við stöðu framkvæmdastjóra. Ég var síðan hjá fyrirtækinu og L&H eignarhaldsfélagi, sem er móðurfyrirtæki þess, allt til ársins 2009. Á þessu tímabili fór samstæðan í útrás eins og svo margir á þeim tíma. Fyrirtækið færði út kvíarnar bæði hérlendis og til Austur-Evrópu með það að markmiði að reka apótek sem störfuðu eftir sambærilegu viðskiptamódeli og Lyf og heilsa á Íslandi. Á þeim tíma hafði átt sér stað reglugerðarbreyting í Austur-Evrópu sem gerði okkur kleift að reka apótek í keðjum. Fyrirtækið hófst því handa við að kaupa apótek og þegar upp var staðið þá enduðum við á að reka um 200 apótek í fimm mismunandi löndum. Apótekin voru rekin sem sjálfstæðar einingar en féllu öll undir eignarhaldsfélag sem var undir Milestone-samstæðunni á þeim tíma,“ útskýrir Hrund. Hrund söðlaði síðan um árið 2009 og hóf störf hjá Marel. „Ég tók við sem framkvæmdastjóri starfsþróunar á sama tíma og fyrirtækið stóð á miklum tímamótum. Það var nýbúið að kaupa hollenska fyrirtækið Stork og það var því samrunaferli í gangi auk þess sem nýr hollenskur forstjóri var að taka við fyrirtækinu. Þetta var sérstaklega skemmtilegur tími, annasamur og fjölbreytilegur í stórfyrirtæki sem var á fleygiferð á þeim tíma,“ segir Hrund.

Skipti um hlutverk við forstjórann

Hrund hóf stjórnarstörf hjá Veritas samhliða starfi sínu hjá Marel árið 2009. „Við Hreggviður Jónsson, þáverandi forstjóri Veritas, höfðum kynnst í gegnum lyfjaheiminn hérna heima en Lyf og heilsa var og er viðskiptavinur samstæðunnar. Ég sat í stjórninni til ársins 2013 eða allt þar til Hreggviður bauð mér að taka við stjórnartaumunum. Hann var þá farinn að hugsa sér til hreyfings og farinn að skoða aðra hluti. Við hreinlega skiptum, ég tók við forstjórahlutverkinu og hann settist í stjórnina þar sem hann er stjórnarformaður í dag.“

Viðtalið við Hrund í fullri lengd má nálast í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.