Bókfært tap Skipta í fyrra nam 10,2 milljörðum króna sem skýrist einkum af virðisrýrnun óefnislegra eigna, sem nam 7,3 milljörðum króna, og gengisþróun íslensku krónunnar. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 8,7 milljörðum króna samanborið við 9,0 milljarða árið áður.

„Árið 2009 einkenndist af mikilli óvissu í rekstrarumhverfi félagsins. Afkoman af reglulegri starfsemi félagsins á árinu er góð miðað við aðstæður, handbært fé frá rekstrinum er áfram mjög sterkt og við erum stolt af því að skila tæpum 9 milljörðum króna í EBITDA," er haft eftir Brynjólfi Bjarnasyni forstjóra Skipta í tilkynningu með uppgjöri félagsins.

Sala Skipta jókst um 2% frá fyrra ári, nam 39,7 milljörðum króna samanborið við 39,0 milljarða árið áður. 37% af tekjum samstæðunnar koma frá erlendri starfsemi félagsins samanborið við 32% árið áður.

Handbært fé frá rekstri án vaxta og skatta nam 9,1 milljarði króna, samanborið við 10,1 milljarð árið áður. Eftir vexti og skatta nam handbært fé frá rekstri 6,9 milljörðum króna.