Sérfræðingur hjá fjármálafyrirtækinu TD Securites segir það ekki skipta máli þó að Seðlabankinn hækki stýrivexti um 100 punkta í næstu viku.

?Jafnvel þótt bankinn myndi hækka um 100 punkta þá myndi það ekki hafa mikil áhrif á verðbólguhorfur," segir Beat Siegenthaler, einn sérfræðinga TD Securities í London sem fylgist með íslenska efnahagslífinu.

Sérfræðingar segja að verðbólgan, sem er 7,6% á ársgrundvelli samvæmt nýjustu mælingum Hagstofunnar, leiði til þess að líklegra sé að bankinn hækki stýrivexti um 75 punkta í 12,25% þann 18. maí.

En sumir sérfræðingar telja að þrátt fyrir stýrivaxtahækkanir hafi veiking krónunnar komið að stað verðbólguskoti sem erfitt verður að koma í veg fyrir. Einnig benda sérfræðingar á að fjámálamarkaður sé enn næmur eftir umrót síðustu mánaða og að eftirspurn eftir krónum muni ekki aukast þrátt fyrir aukinn vaxtamun við útlönd.