*

þriðjudagur, 18. janúar 2022
Innlent 24. október 2020 19:01

Skiptir húsverkum til jafns

Smáforritið Heima, sem sigraði Gulleggið, er stafrænn verkefnastjóri húsverka sem skiptir verkum jafnt milli heimilisfólks.

Sveinn Ólafur Melsted
Sigurlaug Guðrún Jóhannsdóttir, Birgitta Rún Sveinbjörnsdóttir og Alma Dóra Ríkarðsdóttir.
Aðsend mynd

Viðskiptahugmyndin Heima, smáforrit sem skiptir húsverkum og hugrænu byrðinni af heimilishaldi jafnt milli sambýlinga, vann á dögunum frumkvöðlakeppnina Gulleggið sem er á vegum Icelandic Startups. Að launum fengu sigurvegararnir eina milljón króna sem mun nýtast vel til að standa straum af kostnaði við þróun smáforritsins. Heimateymið samanstendur af þeim Ölmu Dóru Ríkarðsdóttur, Sigurlaugu Guðrúnu Jóhannsdóttur og Birgittu Rún Sveinbjörnsdóttur.

Alma Dóra segir að fundur hennar og Sigurlaugar, sem eru gamlar grunnskólavinkonur, í Boston þar sem þær bjuggu báðar á þeim tíma hafi verið upphafspunktur Heima. Eftir að hafa spjallað saman um stund hafi þær svo komist að sameiginlegri ástríðu þeirra fyrir jafnrétti og nýsköpun. Hugmyndin á bak við Heima átti þó eftir að fæðast skömmu síðar.

„Ég flutti til Íslands og hóf meistaranám í kynjafræði við Háskóla Íslands. Í kynjafræðinni er komið inn á misskiptingu húsverka inni á heimilum, sem takmarkar möguleika kvenna í atvinnulífinu sem og persónulega lífinu. Ég byrjaði því mikið að hugsa um þetta og hvernig væri hægt að finna lausn á þessu vandamáli. Mér datt svo í hug að það væri hægt að búa til leikjavætt smáforrit sem myndi sjá um að deila niður húsverkum og taka því við þessu verkefnastjórahlutverki sem svo margar konur sinna," segir Alma Dóra.

Teymið verður til

Fljótlega eftir að hafa fengið hugmyndina varð Ölmu Dóru hugsað til Sigurlaugar, enda myndi bakgrunnur hennar og ástríða fyrir nýsköpun og jafnrétti henta fullkomlega til að gera hugmynd sem þessa að veruleika. „Ég ákvað að heyra í Sigurlaugu sem var strax spennt fyrir þessari hugmynd og ákváðum við því að hittast til þess að fara betur yfir málin." Að fundi loknum hafi hugmyndin verið orðin fullmótaðri. „Þarna kom bakgrunnur okkar sterkur inn, ég er menntuð í viðskiptafræði og Sigurlaug er með BS gráðu í hugbúnaðarverkfræði og hefur reynslu af hönnun smáforrita, uppsetningu og forritun."

Fljótlega tóku þær þó eftir því að það væri vöntun á aðila sem hefði reynslu af útlitshönnun smáforrita. „Þá kom Birgitta Rún strax upp í hugann en við vorum saman í Versló og ég vissi að hún hefur verið að gera mjög flotta hluti í stafrænni hönnun," segir Alma Dóra og bætir við að aðeins hafi þurft eitt stutt símtal til þess að sannfæra Birgittu Rún um að slást í hópinn.

Stefna að sókn á erlenda markaði

Alma Dóra segir að Heima sé enn á hugmyndastigi en næstu skref séu að halda áfram þróun og hefja prófanir á smáforritinu, ásamt því að stofna fyrirtæki í kringum reksturinn. „Margir hafa sýnt áhuga á að fá að vera í prufuhópnum sem mun koma til með að fá að prófa forritið áður en það verður sett í loftið," segir hún og bendir á að áhugasamir geti áður en langt um líður skráð sig á póstlista inni á Facebook og Instagram síðum Heima til að fá að vera með í prufuhópnum. Vonast Alma Dóra til þess að smáforritið fari í loftið í lok þessa árs eða byrjun þess næsta.

Alma Dóra kveðst binda miklar vonir við Heimateymið og sér ekkert því til fyrirstöðu að umrætt verkefni sé fyrsta skrefið af mörgum í frumkvöðlavegferð teymisins. „Samstarfið hefur gengið mjög vel og við eigum stóra drauma fyrir hönd Heima sem ná langt út fyrir landsteinana. Við höfum komið auga á fjölda tækifæra, sérstaklega á Norðurlöndunum, og víðar um heim allan. Þar sem um er að ræða smáforrit er auðvelt að skala það upp og laga það að mismunandi mörkuðum. Ég er því vongóð um að við getum farið að herja á erlenda markaði eftir að búið er að þróa vöruna á heimamarkaðnum."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Gulleggið smáforrit Heima húsverk