Gunnar Andrés Jóhannsson, formaður veiðifélags Ytri-Rangár og vesturhluta Hólsár, segir í samtali við VB.is að það sé ákveðinn kostur að leigutaki sé aðeins með eina á á leigu. „Það þýðir að hann getur einbeitt sér að sölu og umsjón með þessari á. Þegar leigutaki sér um fjöldamargar ár getur það komið niður á einbeitingunni.“

Gunnar segir það líka jákvætt að hafa samið við félag eins og Heggöy. „Þeir munu selja töluvert á erlenda markaðnum. Þeir verða vissulega með mann hérna til að selja Íslendingum, en það skiptir máli að rækta erlendu markaðina líka. Fyrir hrun var erlendum veiðimönnum nánast rutt út úr mörgum ám, enda voru bankarnir mjög grimmir í að taka jafnvel heilu árnar á leigu. Það leiddi líka til þess að verð hækkaði.“

Eins og fram hefur komið á VB.is í dag stendur til að lækka verð til veiðimanna í Ytri-Rangá. Gunnar segist halda að fleiri ár muni lækka verð á næsta ári. „Sumar ár munu ekki þurfa að lækka verð, einkum smærri ár þar sem veiði hefur verið góð, en aðrar ár munu að öllum líkindum þurfa að lækka verð til veiðimanna.“