Skiptum á þrotabúum eignarhaldsfélaga í eigu núverandi og fyrrum forstjóra Sögu fjárfestingarbanka er lokið. Engar eignir fundust í búunum. Um er að ræða félögin Maríutása ehf., sem var í eigu Þorvalds Lúðvíks Sigurjónssonar, fyrrverandi forstjóra Sögu og félagið Hersir Sigurgeirsson ehf. sem var í eigur Hersis Sigurgeirssonar núverandi forstjóra Sögu og eftirmanns Þorvalds Lúðvíks í forstjórastóli. Þá er skiptum á þrotabúi félagsins Folafótur ehf. einnig lokið. Það var í eigu Rúnars Friðrikssonar, framkvæmdastjóra eigin viðskipta.

Skiptum lauk í gær, 5. júlí, en þau voru tekin til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur þann 13. apríl síðastliðinn. Guðrún Björg Birgisdóttir hrl. var skiptastjóri.

Lýstar kröfur í bú Maríutás ehf. námu tæplega 1,2 milljörðum króna. Í félögin Folafót og Hersi Sigurgeirsson ehf. námu kröfur um 300 milljónum króna.

DV fjallaði um málefni félaganna í apríl síðastliðnum. Þar kom fram að minnsta kosti eitt þeirra, Maríutása, var notað til að fjárfesta í hlutabréfum Sögu fjárfestingarbanka. Félagið skuldaði Sparisjóðabankanum rúman milljarð í árslok 2009, samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir það ár. Lánið nam upphaflega 370 milljónum króna og var til hlutabréfakaupa. Það var í japönskum jenum og svissneskum frönkum.