Engar eignir voru til upp í kröfur í þrotabú Express ferða ehf, dótturfélags Iceland Express. Fyrirtækið var ferðaskrifstofa Iceland Express. Wow air tók flugrekstur flugfélagsins yfir haustið 2012 og hélt Pálmi Haraldsson, kenndur við fjárfestingarfélagið Fons, eftir Express ferðum. Fyrirtækið var svo úrskurðað gjaldþrota 14. maí síðastliðinn.

Fram kemur í Lögbirtingablaðinu í dag að skiptum þrotabúsins lauk 19. ágúst síðastliðinn. Lýstar kröfur námu rúmum 64,9 milljónum króna og fundust engar eignir í búinu. Skiptum lauk því án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur, auk áfallinna vaxta og kostnað.

Ástráður Haraldsson var skiptastjóri þrotabús Express ferða ehf. Hann var jafnframt skipaður skiptastjóri þrotabús Iceland Express.