Skiptum er lokið á Fjárfestingarfélaginu Gaum ehf. Félagið var úrskurðað gjaldþrota þann 18. september árið 2013. Alls námu lýstar kröfur í búið rúmlega 38,6 milljörðum króna. Skiptum lauk þann 22. mars 2016.

Samþykktar veðkröfur námu þá 27,8 milljónum og voru greiddar að fullu. Almennar kröfur í félagið námu þá rúmum 22,2 milljörðum króna en upp í þær fengust 14,8 milljónir króna eða um 0,067% lýstra krafna. Félagið heitir nú FG-5 ehf.

Gaumur var eignarhaldsfélag Baugsfjölskyldunnar en það átti um það bil 75% hlut í Baugi Group og hélt utan um eignir fjölskyldunnar í Högum. Fjölskyldumeðlimir áttu þá ríflega 97% hlut í Fjárfestingarfélaginu Gaumi. Undir Baugi Group voru svo fjölmörg dótturfyrirtæki.

Rétt um fjögur ár liðu milli þess að Baugur varð gjaldþrota og að Gaumur yrði það sömuleiðis. Kristín Jóhannesdóttir var þá skráður framkvæmdastjóri fyrirtækisins í ársreikningi árið 2007 en síðan þá skilaði félagið ekki ársreikningi þrátt fyrir að því væri skylt að gera svo samkvæmt lögum.