Skiptum er lokið á þrotabúi MK hljóðvers ehf. í Hafnarfirði. Lýstar kröfur námu samtals rúmum 16 milljónum króna. Fram kemur í Lögbirtingablaðinu í dag að félagið var úrskurðað gjaldþrota 11. október í fyrra og lauk skiptum 17. maí síðastliðinn. Þar segir ennfremur að tæpar 600 þúsund krónur voru greiddar upp í kröfur.

MK hljóðver ehf. hélt utan um húsnæði hljóðvers Magnúsar Kjartanssonar eins af þekktustu tónlistarmönnum þjóðarinnar. Magnús sagði í samtali við vb.is í febrúar að hann hafi keypt húsnæði hljóðversins með láni í erlendri mynt frá Sparisjóði Hafnarfjarðar, síðar Byrs, á sínum tíma. Þegar afborganir af því hækkuðu hafi hann ekki séð ástæðu til þess að dansa í sama takti og varð úr að félagið fór í þrot. Magnús bjóst við að húsnæðið verði boðið upp. Hann reiknaði ekki með að margir myndu bjóða í húsið fyrir utan Íslandsbanka sem á eignir Byrs.

„Ég ætla ekki að reka svona aðstöðu áfram,“ sagði Magnús í samtali við vb.is.