Skiptum er lokið á Tumbull ehf. en félagið hét áður Murr ehf. Félagið var tekið til gjaldþrotaskipta í júní 2014 en skiptum var lokið þann 9. mars 2016. Tilkynning um lok skipta birtist í Lögbirtingarblaðinu í dag.

Alls námu lýstar kröfur um 143,5 milljónum króna. Skiptum lauk með því að 44% fékkst greitt upp í samþykktar forgangskröfur og skiptakostnaður fékkst greiddur að fullu. Ekkert fékkst greitt upp í almennar kröfur.

Murr var stofnað 2008 og framleiddi gæludýrafóður fyrir hunda og ketti. Fram kemur í frétt Bæjarins bestu frá 2014 að Murr hafi lagt  áherslu á að framleiða gæludýrafóður úr náttúrulegum afurðum án uppfyllingar- og aukaefna. Þrír starfsmenn unnu hjá Murr undir lokin en þegar mest var störfuðu átta manns hjá fyrirtækinu.