Engar eignir fundust upp í rétt rúmlega 3,2 milljóna króna kröfur einkahlutafélagsins Stjórnarinnar ehf. Félagið var í eigu Grétars Örvarssonar, hljómborðsleikara og forkólfs hljómsveitarinnar Stjórnin. Félagið tengist hvorki hljómsveitinni, söngkonunni Sigríði Beinteinsdóttur , né útgáfu hennar á neinn hátt að öðru leyti en því að nöfnin eru þau sömu. Félagið var úrskurðað gjaldþrota í september í fyrra. Skiptum lauk 17. desember síðastliðinn, að því er fram kemur í Lögbirtingablaðinu.

Félagið var rekið á kennitölu frá árinu 2005 en hafði ekki skilað ársreikningi um árabil. Síðasti birti ársreikningur Stjórnarinnar er fyrir árið 2007. Þar kemur fram að rekstrarafkoma félagsins var neikvæð um tæpa 1,7 milljónir króna, en var jákvæð um 981 þúsund krónur árið 2006.

Viðskiptablaðið fjallaði um Stjórnina í október í fyrra og benti m.a. á að fjárhagsleg staða Stjórnarinnar virðist hafa verið ágæt í árslok 2007.