Skiptum er nú lokið á fyrirtækinu Regn ehf. Það var úrskurðað gjaldþrota í júní árið 2013 en skiptum lauk þann 27. maí 2016 – tæplega þremur árum síðar. Kröfur í félagið námu alls 158,7 milljónum króna. Þar af voru búskröfur 7,4 milljónir en þær fengust greiddar að fullu. Forgangskröfur námu 448 þúsund krónum en af þeim fengust 128 þúsund krónur greiddar. Ekkert fékkst þá greitt upp í almennar kröfur sem námu 150,7 milljónum króna.

Regn ehf. var í eigu hjónanna Sjafnar Sóleyjar Kolbeinsdóttur og Sigurðar Jenssonar og hélt utan um rekstur fylgihlutaverslunarinnar Accessorize, sem var til húsa í Kringlunni. Félagið var stofnað árið 1995. Sínum síðasta ársreikningi skilaði félagið til ríkisskattstjóra árið 2012 og var það því rekið í meira en 17 ár áður en það var úrskurðað gjaldþrota.

Samkvæmt ársreikningum Regns ehf. var rekstur fyrirtækisins orðinn krappur rétt áður en því var lýst gjaldþrota. 52,2 milljóna króna tap var af rekstri félagsins árið 2012 og hafði verið árið á undan. Eignir þess námu 83 milljónum króna. Þaðan af voru skuldir 160 milljónir króna og eigið fé neikvætt um 77,5 milljónir króna.

Þá gerðist það ótengt grunnrekstri félagsins að þrotabú þess höfðaði mál gegn fyrrverandi eiganda þess, Sjöfn Sóleyju Kolbeinsdóttur, vegna þriggja greiðslna sem greiddar voru út af reikningi þess yfir á reikning Sjafnar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .