Skiptum er lokið á þrotabúi félagsins Ský ehf. Fyrirtækið var úrskurðað gjaldþrota snemma árs, eða í janúar 2016. Það hafði lögheimili á Linnetsstíg í Hafnarfirði og hafði þá verið í rekstri allt frá árinu 2001. Það skilaði ársreikningum allt til ársins 2015.

Kröfur í búið námu tæplega 45 milljónum króna en engin greiðsla fékkst upp í lýstar kröfur auk kostnaðar og áfallinna vaxta eftir úrskurðardag gjaldþrotaskipta. Ský ehf. var framleiðslufyrirtæki með þann yfirlýsta tilgang að framleiða kvikmyndir, myndbönd og sjónvarpsefni. Það gaf út eina kvikmynd og svo kom félagið að framleiðslu þáttaraðar sömuleiðis.

Í stjórn fyrirtækisins árið 2007 voru þau Lind Einarsdóttir og Steingrímur Jón Þórðarson sem áttu helmingshlut í fyrirtækinu hvort. Nýlega gaf Steingrímur Jón út mynddiskinn „Við árbakkann,“ þar sem hann ásamt Gunnari Bender ræðir við veiðimenn víðs vegar um landið.

Kvikmyndin sem um ræðir var heimildarmyndin „Þetta er ekkert mál“. Kvikmyndin fjallar um lífsferil og íþróttamennsku kraftlyftingamannsins Jóns Páls Sigmarssonar en hún kom út árið 2006. Henni var leikstýrt af Steingrími Jóni en handrit hennar var skrifað af Hjalta Árnasyni og Steingrími fyrrnefndum. Jón Páll er flestum þekktur sem Íslendingurinn sem varð sterkasti maður í heimi fjórum sinnum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .